FRÉTT ÝMISLEGT 22. APRÍL 2020

Á Hagstofu Íslands er unnið ötullega að því að meta innleiðingu Íslands á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. En heimsmarkmiðin eru að auka velsæld, meðal annars með því að eyða fátækt, bæta heilsu, auka aðgerðir í umhverfismálum ásamt því að stuðla að friði og réttlæti.

Tölfræðistofnun Sameinuðu þjóðanna hefur skilgreint safn 244 mælikvarða sem ætlað er að meta árangur einstakra ríkja sem og heimsbyggðarinnar allrar í innleiðingu á þeim 17 yfirmarkmiðum og 169 undirmarkmiðum sem samþykkt voru af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Ætlast er til að heimsbyggðin hafi náð markmiðunum fyrir árið 2030.

Hagstofa Íslands heldur úti tölfræðigátt þar sem nálgast má tölfræðilegar upplýsingar sem sýna hvernig íslensku samfélagi miðar áfram við innleiðingu heimsmarkmiðanna.

Í gáttinni má nú finna upplýsingar um 150 mælikvarða heimsmarkmiðanna og hefur þeim fjölgað um 44 frá því í janúar þegar gáttin var fyrst opnuð. Á Hagstofunni verður áfram unnið að gagnaöflun fyrir þá mælikvarða sem enn vantar upp á, en þeir verða birtir jafnóðum og gögn berast.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.